Karellen

Sérstök stefna í leikskólastarfinu

Heilsuleikskólinn Heiðarsel starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 78/1994 og aðalnámskrá leikskóla sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu 1999. Til að ná þeim markmiðum sem sett eru þar höfum við valið okkur ákveðnar leiðir sem umgjörð utan um starfið.
Á hverjum degi eru val- og vinnustundir þar sem frjáls og skipulagður leikur fær að njóta sín.

Einkunnarorð skólans eru: hreyfing, næring, listsköpun, leikur

8. október 2004 varð Heiðarsel Heilsuleikskóli og fór að vinna eftir heilsustefnunni. Markmið skólans er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á leik, hreyfingu, næringu og listsköpun í leik og starfi.

Hreyfing
Í markvissri hreyfiþjálfun eflist alhliða þroski barnsins. Barnið öðlast betri líkamsvitund og góð líkamleg færni leiðir af sér ánægðra barn. Sjálfsöruggt og ánægt barn á auðveldara með að leika sér og tileinka sér þekkingu. Markviss hreyfiþjálfun hefur einnig áhrif á málþroska og málskilning barna og þar með eykst félagsfærni og leikgleði sem eflir vináttubönd.

Næring
Lögð er áhersla á að börnin fái hollan og fjölbreyttan mat í leikskólanum. Hollt fæði er grunnur að almennri heilsu einstaklings, s.s. líkamlegri og andlegri vellíðan, þroska, ónæmi og frammistöðu alla ævi. Í æsku er hollt fæði sérstaklega mikilvægt vegna þess að á þessu tímaskeiði fer fram mesti vöxtur og þroski ævinnar. Auk þess er lögð áhersla á að nota sem minnst af fitu, sykri og salti sbr. fæðuhring Manneldisráðs.

Listsköpun í leik og starfi
Barn hefur mikla þörf fyrir að skapa og gerir það allar stundir í leik sínum. Það að vinna út frá eigin forsendum og með þann efnivið sem það kýs hverju sinni gefur barni færi á að þroska alla hæfileika sína. Skapandi starf eflir gagnrýna hugsun barna, þjálfar rökhugsun og eflir skynjun barns og næmi fyrir umhverfinu.

Áhersluþættir

Heilsubókin
Í tengslum við heilsustefnuna var ákveðið að taka upp heilsubók barnsins í leikskólanum. Bókin er skráningarbók sem inniheldur ýmis skráningarblöð er varða margs konar upplýsingar um barnið, s.s. heilsufar, hæð og þyngd, félagslega færni, hreyfigetu, næringu og svefn auk færni í listsköpun. Hvert barn á sína bók og skráð er í hana með leyfi foreldra tvisvar á ári, vor og haust. Bókin er eign barnsins þegar það hættir í leikskólanum.

Einfaldleiki í umhverfi-opinn efniviður
Á Heiðarseli er lögð áhersla á einfaldleika í umhverfinu og opinn efnivið. Með því leggjum við áherslu á að barnið sjálft sé í fyrirrúmi og fái að njóta sín sem einstaklingur á sínum forsendum í leik og starfi. Barnið lærir að skapa og leita lausna án þess að binda hugann við fyrirfram ákveðnar lausnir.
Með einfaldleika í umhverfi er átt við að áreiti séu sem minnst og hefti ekki börnin og hugmyndaflug þeirra. Á hverri deild er ákveðið svæði þar sem börn og starfsfólk geta hengt upp listaverk eftir börnin.

Með opnum efnivið er átt við leikefni sem býður upp á margar lausnir og engin ein er rétt. Leikefnið sem flokkast undir opinn efnivið og unnið er með á Heiðarseli eru einingakubbar sem hannaðir eru af bandarískum uppeldisfrömuði Caroline Pratt. Kubbarnir eru úr tré og eru af mörgum mismunandi stærðum. Þeir eru allir mótaðir út frá svokölluðum grunnkubb eða einingakubb og eru allir í ákveðnum stærðarhlutföllum út frá honum. Þessi efniviður gefur börnunum tækifæri til að kynnast grunnhugtökum stærðfræðinnar og þjálfa rökhugsun þar sem þau þurfa að glíma við þrautir og leita úrlausna. Einnig er unnið með leikdeig sem búið er til vikulega í skólanum og fjölbreyttan efnivið til myndsköpunar s.s. liti, málningu, pappír og efni úr náttúrunni.

Jákvæð sjálfsmynd-Jákvæður agi
Á Heiðarseli er lögð áhersla á jákvæðan aga. Reglur eru fáar og einfaldar. Við temjum okkur að segja börnunum hvað sé í boði og hvað ekki til að umhverfið og reglurnar í leikskólanum sé sem skýrast. Mikilvægt er að efla sjálfsmynd barna, hrósa þeim og hvetja þegar við á. Lögð er áhersla á að leikskólakennarar sýni börnunum virðingu í öllum samskiptum og að barnið læri að virðing og náungakærleikur sé forsenda mannlegra samskipta.

Jákvæð afstaða til barnsins, umburðalyndi, tillitsemi og réttsýni er haldgóð fyrirmynd í leikskólastarfi.

Markviss málörvun
Lestrarmenningarátak Reykjanesbæjar hófst árið 2003, leikskólinn setti sér markmið um lestur og málörvun í daglegu starfi og er markviss málörvun orðinn einn af áhersluþáttum skólans. Öll börn leikskólans fara í markvissa málörvun einu sinni til tvisvar sinnum í viku. Gerð er mánaðaráætlun fyrir hvern aldurshóp.

© 2016 - 2023 Karellen