Karellen

Könnunarleikur

Á þessu skólaári verður unnið með könnunarleik fyrir yngstu börn leikskólans. Könnunarleikur (heuristic play with objects) hefur verið prófaður í fjölda ólíkra landa til margra ára með stórum hóp barna. Gerðar hafa verið ýmsar athuganir og einnig hefur verið notast við upptökur. Athuganir hafa sýnt að börn um 2 ára aldur byrja að sýna vilja til að skiptast á hlutum við jafnaldra sína og sú tilhneiging verður meira áberandi í könnunarleik þar sem efniviður er við þeirra hæfi.

Könnunarleikur kemur ekki í staðinn fyrir leik heldur er ætlaður sem viðbót og til að auðga leik yngstu barnanna (1-3 ára). Engin ein leið er rétt í könnunarleik, efniviður er mismunandi eftir því hverju fólk safnar og auk þess hefur fólk mismunandi hugmyndir. Þessi aðferð hvetur til þess að hinn fullorðni sé skapandi og geri umhverfið að örvandi stað fyrir yngstu börnin. Mikilvægt er að viðurkenna að börn á þessum aldri hafa þörf á ákveðinni námsleið, ekkert síður en eldri börn. Börn hafa ánægju af leiknum auk þess sem þau þjálfast í að einbeita sér. Ekki er óalgengt að sjá börn á þessum aldri leika sér í 30 mínútur eða lengur við könnunarleik. Þau haga sér eins og vísindamenn sem prófa sama hlutinn aftur og aftur þar til árangur næst. Könnunarleikur fer þannig fram að safnað hefur verið saman í poka alls konar "verðlausum" hlutum. Þetta eru hlutir eins og til dæmis keðjur, lyklar, dósir og lok. Eftir að búið er að raða innihaldi pokans á gólfið hefst leikurinn. Börnin velja sér hluti og nota þá á margan hátt. Þau fylla, tæma, setja saman, stafla, raða, draga, hrista, velja og hafna. Börnin leika sér ótrufluð án fyrirmæla frá hinum fullorðna. Þau leiða leikinn sjálf og læra um leið að hægt er að gera hluti á margan máta. Enginn niðurstaða er rétt eða röng. Í leiknum örva þau skynfæri sín með því að hlusta, snerta, skoða og smakka. Einnig reyna þau á gróf- og fínhreyfingar.

Aðbúnaður og efniviður

· Ákveðinn tími dags er áætlaður fyrir könnunarleik, ca 30-60 mínútur í senn (frá því náð er í efniviðinn og búið er að ganga frá).

· Alltaf er notaður sami staður og þarf hann að vera nægilega stór til þess að börnin geti hreyft sig um frjálslega.

· Hámark í hóp eru 8 börn og þarf fullorðinn alltaf að vera viðstaddur og getur ekki sinnt öðrum störfum á meðan.

· Teppi er nauðsynlegt til að draga úr hávaða því mikil áhersla er lögð á rólegheit í könnunarleik. · Efniviður þarf að vera aðlaðandi og raðaður upp fyrir börnin.

· Nota þarf að minnsta kosti 15 tegundir af efniviði, hver tegund á að vera í poka (406x508mm) með bandi svo mögulegt sé að loka honum.

· 50-60 hlutir geta verið í hverjum poka. Áætlaðir eru um 20 hlutir fyrir hvern 8 barna hóp.

· Sá efniviður sem ekki er í notkun skal ekki vera sýnilegur börnunum

© 2016 - 2023 Karellen